Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í gær fund í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna með Chuck Hagel, varnarmálaráðherra, og Christine H. Fox aðstoðarvarnamálaráðherra, þar sem rætt var um samskipti Íslands og Bandaríkjanna.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að tengsl Íslands og Bandaríkjanna standi traustum fótum og að skýrt hafi komið fram í samtali Gunnars Braga og Hagels að það sé staðföst stefna Bandaríkjanna að standa vörð um gagnkvæma hagsmuni og skuldbindingar ríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála.

Þá var á fundinum fjallað um þróun mála á norðurslóðum og hvernig hægt sé að efla viðbragð og eftirlit á Norður-Atlantshafi í ljósi nýrra áskorana samfara auknum efnahagsumsvifum og aukinni umferð á norðurslóðum. Loftrýmiseftirlit á Íslandi var einnig á dagskrá fundarins og samstarf ríkjanna á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

Þróun mála í Úkraínu og hvalveiðar á dagskrá

Utanríkisráðherra átti einnig fund í gær með Victoriu Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, þar sem tvíhliða samstarf landanna, öryggis- og varnarmál og málefni Atlantshafsbandalagsins voru til umfjöllunar. Þá ræddu ráðherrarnir um þróun mála í Úkraínu og í því ljósi samskipti ríkjanna við Rússland.

Fundaði Gunnar Bragi utanríkisráðherra auk þess með Catherine Novelli, aðstoðarutanríkisráðherra efnahags-, umhverfis- og orkumála í fyrradag. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að Novelli hafi sýnt notkun Íslendinga á jarðhita mikinn áhuga og rætt möguleika á að nýta jarðhitaþekkingu í öðrum löndum sem þyrftu á umhverfisvænni orku að halda.

Þá ítrekaði Gunnar Bragi á fundum sínum í bandaríska utanríkisráðuneytinu að hvalveiðar Íslendinga væru sjálfbærar og byggðust á traustri vísindaráðgjöf auk þess sem veiðarnar væru löglegar samkvæmt alþjóðasamningum. Voru reifaðar hugmyndir um hvernig mætti efla vísindasamstarf milli landanna tveggja á þessu sviði.