Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að yfirlýsingar undanfarið um það hversu mörgum flóttamönnum eigi að taka á móti hér á landi líkist uppboði eða pissukeppni. Hann telur hins vegar að Íslendingar geti tekið á móti fleiri flóttamönnum en þeim fimmtíu sem áður hafði verið tekin ákvörðun um. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu.

Þar er vitnað í viðtal við Gunnar Braga sem flutt verður í Morgunútgáfunni á eftir. „Ég hef ekki viljað taka þátt í því, ég ætla að leyfa mér að nefna það uppboð eða pissukeppni, að nefna tölur varðandi flóttamenn. Mér finnst það í rauninni fáránleg umræða að vera að nefna, fimm hundruð, þúsund, 1.500 eða hvað sem það er. Það sem við þurfum að gera er að setjast niður og átta okkur á því hvað við getum gert og til hvers við treystum okkur,“ segir Gunnar Bragi í viðtalinu.

Hann segir að í framhaldi af því verði tekin ákvörðun um hvort og þá hve mikið verði bætt við þá fimmtíu kvótaflóttamenn sem stjórnvöld höfðu áður ákveðiið að taka við. „Ég held að við getum eitthvað bætt við hjá okkur en ég treysti mér ekki til og vill ekki fara að nefna einhverjar tölur í einhvers konar samkeppni. Mér finnst það í rauninni bara alveg galið.“