Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra telur að Íslendingar eigi að íhuga að draga úr hvalveiðum til þess að mæta gagnrýni á veiðarnar á alþjóðlegum vettvangi. Þetta kemur fram í viðtali við hann í nýjasta tölublaði Skessuhorns.

„Við hér í utanríkisráðuneytinu verðum vör við það frá fyrstu hendi á fundum sem við sækjum að Ísland er stundum litið hornauga vegna þessara veiða. Við eigum þó mjög gott samstarf við Bandaríkin í það heila þó hvalveiðarnar standi í vegi fyrir ákveðnum hlutum,“ segir Gunnar Bragi.

Hann segir að Íslendingum hafi ekki verið boðið á suma fundi og ráðstefnur sem varði málefni hafsins.

„Við eigum ekki að gefa eftir réttinn til að nýta þessa auðlind frekar en hverja aðra. En það er umhugsunarefni fyrir okkur hvort við ættum ekki að koma til móts við alþjóða hvalveiðiráðið til að mynda með því að veiða færri hvali árlega en við gerum nú,“ segir hann.

Nánar á vef Skessuhorns.