Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafa bæði lýst því yfir að þau séu að íhuga framboð til varaformanns í Framsóknarflokknum.

Lilja Alfreðsdóttir, sem tók við stöðu utanríkisráðherra á árinu, situr ekki á þingi en mun koma til með að leiða lista Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi suður. Fram kemur á vef Vísis , að Lilja styðji núverandi forystu flokksins og að hún sé ánægð með störf núverandi ríkisstjórnar. Hún tekur þó fram að allt sé mögulegt í pólitík.

Í viðtali við Fréttablaðið segist Gunnar Bragi sömuleiðis vera að íhuga framboð til varaformanns ef að sú staða komi upp að Sigurður Ingi vilji ekki starfa sem varaformaður. Gunnar Bragi er afdráttarlaus og haft er eftir honum að hann sé sannfærður um að Sigmundur Davíð sé rétti aðilinn til að stýra Framsóknarflokknum og styður hann því ekki Sigurð Inga til formannssetu.

Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)