Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að Stefan Fühle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, fari frjálslega með staðreyndir. Fuhle fullyrti í gær að skammt hafi verið í að hægt yrði að leggja samning fyrir Íslendinga sem hefði tekið tillit til sérstöðu Íslands en um leið grundvallarreglna Evrópusambandsins.

„Hér er farið heldur frjálslega með. Staðreynd málsins er sú að öll stærstu málin í þessum viðræðum stóðu enn út af þegar hlé var gert á þeim. Þrátt fyrir að margir samningskaflar höfðu verið opnaðir og um þriðjungi lokað, þá fær það ekki staðist að stutt hafi verið í samningsniðurstöðu þegar kaflar um sjávarútveg og landbúnað höfðu ekki verið opnaðir svo ekki sé minnst á þá staðreynd að ESB hafði ekki einu sinni afgreitt sína eigin rýniskýrslu um sjávarúvegskaflann,“ segir Gunnar Bragi í yfirlýsingu til fjölmiðla.

Gunnar Bragi segir að þessi fullyrðing stækkunarstjórans sýni að það sé brýnt að réttar upplýsingar um stöðu viðræðnanna við ESB séu á borðinu. Þess vegna muni sá þáttur einmitt verða hluti af þeirri úttekt sem hann muni kynna fljótlega á nýju ári.