Fyrrverandi utanríkisráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson hefur dregið framboð sitt fyrir flokkinn til baka. Þetta kemur fram í langri yfirlýsingu á Facebook síðu hans þar sem hann segir hreinlyndið vera á undanhaldi í flokknum sem hann hefur starfað fyrir síðan 1974.

Gunnar Bragi hefur löngum verið einn helsti samstarfsmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fyrrum forsætisráðherra í Framsóknarflokknum, en Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um nýstofnaðan flokk hans.

„Einhver annarleg öfl virðast hafa tekið forystu í flokknum, öfl sem ég hef líklega ekki verið nógu undirgefinn. Kafbátahernaður er stundaður,“ segir Gunnar Bragi. „Það er kannski ekkert nýtt en þegar að menn sem ég hef hingað til talið hreinskiptinna vina minna eru farnir að grafa undan persónu manns þá staldrar maður við.

Menn sem ekki þora að horfa í augun á manni og segja „Ég held það sé kominn tími að þú dragir þig í hlé“ en kjósa þess í stað að grafa undan fólki eiga ekki traust skilið. Verst þykir mér að þessi óheilindi eru leidd af fólki í trúnaðarstöðum fyrir flokkinn í minni heimabyggð og einstaklingum sem telja sig eiga að ráða framvindu mála. Menn geta borið titla, skreytt sig borðum á hátíðisstundum, vígt hús eða sjósett skip en það gerir þá ekki að traustum eða merkilegum mönnum.“