„Það er gaman að hlusta á þetta. Tíminn líður og helgin nálgast. Minnst er talað um skýrsluna,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra um erindi þeirra þingmanna sem stigu í pontu á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins. Þingmennirnir þrýstu á um umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar un stöðu aðildarviðræðna stjórnvalda við ESB og þróun ESB sem birt var í síðustu viku. Þeir hafi beðið lengi eftir skýrslunni en hún stuttlega rædd á Alþingi. Af þeim sökum var þess krafist að skýrslan fengi þinglega meðferð. Gunnar Bragi sagði ekki vanann að skýrsla sem þessi fari til nefndar. Í raun hafi það gerst í fáum tilvikum.

Á dagskrá Alþingis í dag var þingsályktunartillaga Gunnars Braga þess efnis að draga umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka.

Árni Páll Árnason , formaður Samfylkingarinnar, sagði í morgun vafa leika á því hvort tillagan sé þingtæk. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, taldi við upphaf þingfundar svo hafa verið og tæki hann því ekki málið af dagskrá. Stjórnarandstæðingar á þingi mótmæltu því. Einar samþykkti að boða til fundar um málið í forsætisnefnd í kvöldmatarhléi í dag.