Straumur fjárfestingabanki hefur eflt starfsstöð sína í Stokkhólmi enn frekar með því að ráða Gunnar Brundin í stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs í Svíþjóð. Gunnar hefur 15 ára reynslu af norrænum fjármálamarkaði og starfaði áður hjá Kaupþingi, Carnegie og Investor.

Með ráðningunni færist Straumur nær því marki að verða leiðandi fjárfestingabanki í Norður- og Mið-Evrópu með öfluga starfsemi í Svíþjóð. Gunnar Brundin mun byggja upp og leiða fyrirtækjasviðið þar, sem mun leggja áherslu á þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki og fagfjárfesta.

"Við erum ákaflega ánægð með að hafa fengið Gunnar til liðs við okkur," segir Oscar Crohn, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Straums. "Gunnar hefur mikla reynslu sem mun nýtast vel við að koma fjölbreyttri þjónustu okkar á sviði ráðgjafar og fjármögnunar á framfæri í Svíþjóð. Með fyrirtækjasviðinu í Stokkhólmi fjölgar enn þeim tækifærum sem felast í aukinni útbreiðslu okkar á alþjóðavettvangi."

Gunnar Brundin tók við starfinu þann 1. febrúar síðastliðinn. Hann var áður forstöðumaður fjárfestingabankaþjónustu Kaupþings í Svíþjóð. Hann hefur MBA gráðu frá University of Massachusetts, Amherst.