Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs í Bretlandi, er einn af hástökkvurum lista Retail Week. Gunnar, sem tók við umsjón með öllum smásölufjárfestingum Baugs fyrr á árinu, er nú í 22. sæti listans en hann kemur nýr inn. Hann er næst á eftir Pierre Omudyar, stofnanda eBay.

Eins og komið hefur fram er Jón Ásgeir Jóhannesson, framkvæmdarstjóri Baugs Group, nú þriðji áhrifamesti aðilinn í smásöluumhverfi Bretlands samkvæmt lista Retail Week.

Óhætt er að segja að Baugur hafi talsverð tengsl inn á listann því Derek Lovelock, forstjóri Mosaic Fashions, er nú í 12. sæti listans enda Mosaic nú næst stærsta smásöluversunarkeðjan á sviði tískufatnaðar, næst á eftir Arcadia í eigu Sir. Phillip Green.

Jón Ásgeir hefur hækkað sig töluvert, en hann var í 21. sæti á síðasta ári. Þeir sem sitja fyrir ofan Jón Ásgeir eru Sir Terry Leahy, framkvæmdarstjóri Tesco, sem einnig var í fyrsta sæti í fyrra og Stuart Rose, framkvæmdarstjóri Marks & Spencer, en hann var einnig í öðru sæti í fyrra.

Í Retail Week segir að Jón Ásgeir hafi á árinu gert enn eina atlöguna að smásölurekstri í Bretlandi þegar verslunarkeðjunni House of Fraser og tískuvöruverslunarkeðjunni All Saints var bætt í eignasafn Baugs.

Þá segir að kaupin hafi verið kjörin viðbót í eignasafnið og með þeim hafi fjárfestingarstefna fyrirtækisins farið að skýrast. Þannig eigi Baugur nú lykilverslun sem fari vel með fjölmörgum tískuvöruverslunum þeirra. Þá segir að aðrir hápunktar ársins hafi verið endurfjármögnun Julian Graves, sameining Goldsmiths og Mappin & Webb og fyrirhuguð endurfjármögnun Iceland.

Árið var þó ekki eingöngu dans á rósum, segir í fréttinni, en MKOne lenti í fjárhagsvandræðum í byrjun árs og sameining Rubicon og Mosaic Fashions gekk ekki eins vel fyrir sig og til var ætlast. Þá hafa einnig áhrifafjárfestingar í French Connection og Woolworths ekki verið að skila árangri þar sem afkoma þeirra hefur ekki batnað. Þetta gæti þó skapað Jóni Ásgeiri ný tækifæri, þar sem hann, með sínum vanalega töffaraskap, hefur ekki útilokað að Baugur muni nálgast Debenhams, segir í fréttinni.