Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir að ekki sé hægt að leita ráða hjá sérfræðingum um það hvernig ná eigi tökum á verðbólgunni. Kom þetta fram í svari hans við spurningu Helga Hjörvar um það hvort Framsókn ætlaði að afnema verðtryggingu í framtíðinni og afturvirkt.

„Við teljum að það sé ekki hægt lengur að þegar viðskiptavinir koma í viðskiptabankana og taka lán þá var þeim beint inn á þetta,“ sagði Gunnar Bragi. „Við höfum í fjögur ár verið að berjast fyrir því að þessi óskapnaður sem verðtryggingin er í íslenskum lánum hjá neytendum verði sett aftur fyrir. Við verðum að hætta að trúa á þetta fyrirbæri. Það höfum við ekki getað gert því allstaðar eru einhverjir varðmenn fyrir verðtrygginguna, þar á meðal hér á þingi, inni í helstu stofnunum sem stýra þessu samfélagi. Það er eina ráðið að fara þessa leið – og ekki leita til þessara sérfræðinga.“

Spurði hann sjálfur hvort hægt sé að afnema verðtrygginguna afturvirkt án einhverra skaðabóta. „Það er nákvæmlega það sem kemur út úr þessu hjá okkur að við verðum að skoða. Því það er ekki hægt að fara fram með óábyrg loforð í því. Það hefur enginn sagt að það eigi að afnema verðtryggingu af lánum afturvirkt,“ sagði Gunnar Bragi.