Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra svaraði bréfi lögmanns Gunnars Þ. Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME) í dag. Samkvæmt mati ráðuneytisins hefur Gunnar réttarstöðu sem embættismaður ríkisins.

Fréttastofa RÚV greinir frá. Oddný tjáði Viðskiptablaðinu fyrr í dag að hún hafi sent Gunnari bréf. Aðspurð um niðurstöðu ráðuneytisins vísaði hún í lögmann Gunnars.

Skúli Bjarnason hrl., Lögmaður Gunnars ,sendi ráðherra bréf í gær og krafðist þess að fjármálaráðherra myndi úrskurða um réttarstöðu hans, til þess að taka af allan vafa um hvort hann falli undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, vegna fyrirhugaðrar uppsagnar hans.

Í svarbréfi ráðherra segir að fyrst embætti forstjóra Fjármálaeftirlitsins var birt í Lögbirtingarblaðinu við stofnun eftirlitsins, falli embætti forstjórans undir starfsmannalög ríkisins. Ekki sé ástæða fyrir ráðuneytið til að úrskurða sérstaklega í málinu, þar sem það hafi þegar birt embætti forstjóra Fjármálaeftirlitsins á forstöðumannalistanum, að því er fram kemur í frétt RÚV.

Samkvæmt lögunum sem vísað er til er skylt að veita starfsmönnum ríkisins áminningu og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum.