Stjórn Fjármálaeftirlitsins ákvað á fundi sínum í gærkvöldi að framlengja andmælafrest Gunnars Andersen forstjóra stofnunarinnar um þrjá daga, til loka fimmtudags, en stjórnin hafði áður rætt við hann um að hann léti af störfum. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Í bréfi Skúla Bjarnasonar, hrl., lögmanns Gunnars, sem birt hefur verið í fjölmiðlum nú seinnipart dags, kemur fram að Gunnar hafi fyrst borist tilkynning um „löglausa uppsögn sína“ að kvöldi síðastliðins föstudags, 17. febrúar. Honum sé því aðeins gefinn einn virkur dagur til að andmæla. Þá segir Skúli að uppsögnin varði bæði æru og fjárhagslega afkomu Gunnars.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum um helgina telur stjórn FME að Gunnar hafi sem starfsmaður Landsbankans árið 2001 reynt að villa um fyrir stofnuninni í skýrslu um aflandsfélög bankans. Í álitsgerð Ástráðs Haraldssonar, lögmanns og Ásbjörns Björnssonar, endurskoðanda, um hæfi Gunnars til að gegna stöðu forstjóra, segir að í ljósi þess að Gunnar hafi látið hjá líða árið 2001 að upplýsa FME um tvö aflandsfélög Landsbankans vakni efasemdir um hæfi hans.