Gunnar Haraldsson, stjórnarformaður FME, segir að mikil vandamál hafi verið með eiginfjárstöðu og ekki síst lausafjárstöðu Spron og Sparisjóðabankans. Áhætta í kerfinu hafi verið of mikil af þessum sökum. Viðræður hafi átt sér stað við fyrirtækin tvö og kröfuhafa. Sú niðurstaða að FME tæki reksturinn yfir sé neyðarráðstöfun þar sem aðrar leiðir hafi ekki verið færar. Þetta kom fram á blaðamannafundi rétt í þessu vegna yfirtöku FME á Spron og Sparisjóðabankanum.

Gunnar sagði að FME hefði borist bréf frá fyrirtækjunum þar sem þau hafi mælst til þess að FME tæki yfir reksturinn. Sett hafi verið upp áætlun sem miði að því að sem minnst röskun verði fyrir starfsfólk og viðskiptavini. Skilanefnd verði sett yfir Spron en ekki yfir Sparisjóðabankann. Hann fari eðlilega leið í greiðslustöðvun en greiðslumiðlunin fari yfir í Seðlabankann.