Bankasýsla ríkisins hefur skipað þau Gunnar Helga Hálfdanarson, Guðríði Ólafsdóttur, Hauk Halldórsson og Sigríði Hrólfsdóttur sem aðalmenn í bankaráð Landsbanka Íslands (NBI hf.). Gunnar Helgi verður stjórnarformaður bankans. Varamenn skipaðir af Bankasýslu ríkisins eru þau Andri Geir Arinbjarnarson, Guðrún Ragnarsdóttir, Loftur Árnason og Þórdís Ingadóttir.

Tók nýtt bankaráð við á aðalfundi bankans fyrir árið 2008 sem haldinn var í dag.

Bankasýslan fer með 81,3% eignarhlut ríkisins í Landsbanka og skipar fjóra stjórnarmenn af fimm. Skilanefnd Landsbankans, sem fer með 18,7% eignarhlut í Landsbankanum, skipar fimmta stjórnarmanninn.

Jafnrétti kynja ræður ferðinni við val stjórnarmanna

„Rætt hefur verið innan Bankasýslunnar hvort rétt geti verið að fjölga fulltrúum í bankaráð Landsbankans og verður ákvörðun um það tekin fyrir aðalfund ársins 2009 sem haldinn verður í apríl næstkomandi. Markmiðið með slíkri fjölgun væri að styrkja bankaráðið í ljósi þeirra umfangsmiklu og vandasömu verkefna sem framundan eru við uppbyggingu Landsbankans. Þá er einnig til skoðunar hvort leita eigi til erlendra sérfræðingu varðandi stjórnarsetu," segir í tilkynningu frá Bankasýslunni.

„Við leggjum mikið upp úr jafnrétti kynjanna við val á stjórnarmönnum og viljum sjá þau sjónarmið ráða ferðinni þegar stjórnarmenn dótturfyrirtækja bankans verða valdir,“ er haft eftir Elínu Jónsdóttur, forstjóra Bankasýslu ríkisins, í tilkynningu.

Gunnar Helgi var með aðsetur í Svíþjóð

Gunnar Helgi Hálfdanarson er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í rekstrarhagfræði (MBA) frá McMaster University í Ontario í Kanada. Gunnar Helgi starfaði sem forstjóri Landsbréfa hf frá 1989-1999 og var framkvæmdastjóri sjóðasviðs Landsbanka Íslands frá 1997-1999. Frá árinu 1999-2009 starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá AllianceBernstein Investments, með aðsetur í Stokkhólmi og megináherslu á þróun viðskiptasambanda við helstu bankasamstæður Norðurlanda og íslenska lífeyrissjóði.

Guðríður Ólafsdóttir er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í heimspeki og fjölmiðlafræði frá Háskólanum í Ósló. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og staðgengill forstjóra hjá Lýsingu 1993-2007 og sem sérfræðingur á fyrirtækjasviði Landsbanka Íslands frá 2008-2009.

Sigríður Hrólfsdóttir er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í rekstrarhagfræði (MBA) frá Kaliforníuháskóla í Berkeley. Hún starfaði við fjárstýringu hjá Íslandsbanka 1994-1998, og hjá Eimskipafélagi Íslands frá 1998-2004, fyrst sem forstöðumaður fjárreiðudeildar og frá 2000 sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs. Hún var framkvæmdastjóri fjárfestinga- og fjármálasviðs Tryggingamiðstöðvarinnar 2007-2008 og hefur verið framkvæmdastjóri Árvakurs frá 2009.

Haukur Halldórsson er búfræðingur frá Hvanneyri. Hann starfaði um árabil sem bóndi og var formaður Bændasamtaka Íslands frá 1987-1995. Haukur var skipaður varaformaður bankaráðs Landsbanka Íslands í nóvember 2008 og hefur starfað sem formaður bankaráðsins frá febrúar 2009.