Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi, fékk vírus sem lagðist á hjarta hans í vor og varð hann af þeim sökum að fara í hjartaaðgerð. Hann segist orðinn svo miklu verri viðureignar eftir aðgerðina að pólitískir andstæðingar megi fara að vara sig.

Gunnar er nýkominn heim og er að jafna sig eftir aðgerðina. Hann segir í samtali við Kópavogsfréttir að hann hafi í gegnum tíðina haft vandamál með háþrýstinginn. Það tengist bæði hans genetísku og holdarfari. Í vor fékk hann svo flensku og lungabólgu upp úr henni. Rannsóknir leiddu í ljós að lungu hans væru hálffull af vatni.

„Ef læknavísindin væru ekki eins og þau eru orðin í dag þá væri ég sjálfsagt steindauður. En það kom semsagt í ljós að vírus lagðist á hjartað sem sló þá ekki rétt. Vökvi varð eftir í lungunum þannig að ég fékk andnauð og leið alveg djöfullega. Ég fór í hjartaþræðingu og það var allt hreint. Allar kólesteróltölur úr blóðsýnum litu mjög vel út. Vandamálið var bara þetta vatn í lungunum,“ segir Gunnar sem segist orðinn svo hress að hjartað slái eins og Rolls Royce Turbo.