„Fyrirtæki eru í auknum mæli að átta sig á því að þessi samfélög sem myndast í kringum vörur og þjónustu eru mikilvæg,“ segir Gunnar Hólmsteinn, framkvæmdastjóri Clara. Framleiðandi eins stærsta tölvuleikjar heims, League of Legends, bættist nýverið í viðskiptavinahóp hins íslenska hugbúnaðarfyrirtækis Clara. Í þeim hópi eru nú til dæmis Sony Online Entertainment og CCP og eru því mörg af stærri tölvuleikjafyrirtækjum heims farin að nota hugbúnaðarlausn Clara.

Lausnin sem um ræðir heitir Resonata og byggist á tungumálagreiningartæki sem fyrirtækið hefur hannað. Með Resonata geta fyrirtæki fylgst með umræðu og notendahegðun viðskiptavina sinna á netsamfélögum og nær tæknin nú til fleiri en tveggja milljóna virkra þátttakenda í tölvuleikjasamfélögum viðskiptavina Clara.