Hömlur, dótturfélag Landsbankans, hefur selt fyrirtækið Sólningu til Gunnars Justinussen. Gunnar rekur fyrirtækið Pitstop. Hann átti hagstæðasta tilboðið í Sólningu í opnu söluferli sem hófst í byrjun janúar. Heildarvirði Sólningar (e. enterprise value) í viðskiptunum nemur 440 milljónum króna.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum að Sólning reki í dag fjögur verkstæði; á Smiðjuvegi í Kópvogi, Fitjabraut Njarðvík og Gagnheiði á Selfossi og verkstæði undir merkjum Barðans í Skútavogi í Reykjavík. Lager er starfræktur á Smiðjuvegi 11 þaðan sem megninu af heildsölustarfsemi félagsins er sinnt.

Þá kemur fram að söluferlið var opið öllum áhugasömum fjárfestum sem stóðust hæfismat og gátu sýnt fram á fjárfestingargetu að upphæð 100 milljónir króna. Margir sýndu fyrirtækinu áhuga og skiluðu 21 inn óskuldbindandi tilboði og þar af fengu 5 aðgang að gagnaherbergi til að afla sér frekari upplýsinga. Fjármálaráðgjöf Deloitte var ráðgjafi kaupanda.

Salan er með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.