Gunnar Ingi Hansson hefur verið ráðinn forstöðumaður auglýsinga og greininga Símans og hefur hann þegar hafið störf. Gunnar var sölustjóri innan auglýsingadeildar Ríkisútvarpsins og svo vann hann hjá 365 á átta ára tímabili frá árinu 2000.

Hefur hann ríka reynslu af markaðsmálum og hefur hann starfað á auglýsingastofu og við almannatengsl segir í fréttatilkynningu frá Símanum.

„Síminn á frábæra efnisveitu, þar sem fólk sækir efni að eigin höfði, hefðbundna sjónvarpsstöð og útvarpsstöðvar. Það er verðugt verkefni og heiður að fá að móta auglýsingastefnu fyrir efnisveituna og sjá hvernig hún vinnur sem best með eldri miðlum,“ segir Gunnar í fréttatilkynningunni.

„Þetta er mögnuð efnisveita með yfir 5.000 klukkustundir af efni og yfir 550 þúsund spilanir á þáttum í mánuði.“ Við þá tölu bætist áhorf á aðra VOD-þjónustu sem er í boði hjá Símanum auk þess sem fjöldi nýrra þátta verður sýndir í Sjónvarpi Símans í vetur að hans sögn.