Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri Skeljungs, hefur tekið við sem nýr stjórnarformaður Tryggingamiðstöðvarinnar. Hluthafafundur TM var haldinn í gær og var ný stjórn kosin en sjálfkjörið var í stjórnina. Í framboðið voru Gunnar Karl, Jón Sigurðsson, sem kosinn var varaformaður og Þorsteinn Már Baldvinsson.

Fjármálaeftirlitið hefur til meðferðar umsókn FL Group hf. og dótturfélags þess, Kjarrhólma ehf., um virkan eignarhlut í Tryggingamiðstöðinni hf. Þar sem framangreindir aðilar hafa ekki hlotið samþykki Fjármálaeftirlitsins til meðferðar á hinum virka eignarhlut fara FL Group hf. og dótturfélög þess ekki með meira en 9,99% atkvæðisrétt í félaginu. Útgefið hlutafé Tryggingamiðstöðvarinnar hf. er 1.090.290.905 krónur. Fjöldi hluthafa þann 1. október 2007 var 339 og er FL Group stærsti hluthafinn með 46,17% hlut. Kjarrhólmi var þar næstur með 37,57% hlut. Stjórn TM var skipuð þeim Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni, formanni, Guðbjörgu Matthíasdóttur, varaformanni, Geir Zoëga, ritara og Sigurði G. Guðjónssyni.