Samskiptum Gunnars Andersen við stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME) er formlega lokið og lyktir málsins munu ráðast fyrir dómstólum. Þetta segir í bréfi Skúla Bjarnasonar hrl., lögmanns Gunnars, sem sent er fjölmiðlum fyrir hönd Gunnars. Þar segir að hann muni á næstu dögum „birta opinberlega sína heildstæðu sýn á þetta dæmalausa mál“. Gunnar lýsir sig saklausan af öllum sakargiftum. Enn fremur segir hann daginn sorgardag, þar sem Gamla Ísland sigraði Nýja Ísland.

Í bréfinu segir að hvorki Gunnar né lögfræðingur hans hafa fengið kæruna í hendurnar sem send var af stjórn FME til lögreglu í morgun, né fengið þau gögn sem hún er sögð byggja á.

„Í uppsagnarbréfi sem umbjóðanda mínum var afhent í morgun er vitnað til bréfs frá Landsbankanum sem virðist hafa verið fengið þaðan í gær. Upplýsingar sem fram koma í téðu bréfi bankans eru sagðar á meðal nokkurra nýrra brottrekstrarástæðna umbjóðanda míns. Svo lítur út sem einhverjir hafi óheftan aðgang að alls kyns upplýsingum úr Landsbankanum. Umbjóðandi minn verður hins vegar eins og svo oft áður í þessu ótrúlega ferli að beita ágiskunum. Í fréttum hefur verið látið að því liggja að kærumálið tengist tilteknum stjórnmálamanni. Alltaf er slæmt þegar stigið er á tær, einkum þær sem tengjast bæði peningavaldi og pólitík. Það skyldi þó aldrei vera að í sjálfri kærunni sé að finna lykilinn að lausn gátunnar um raunverulegar ástæður tafarlauss brottrekstrar?“ Enn fremur segir í bréfinum að gögn frá Landsbankanum um umræddan stjórnmálamann hafi Gunnar aldrei séð, þrátt fyrir fullyrðingar fjölmiðla um hið gagnstæða.

„Umbjóðandi minn lýsir sig eins og áður fullkomlega saklausan af öllum sakargiftum, jafnvel þótt hann hafi af því bitra reynslu í samskiptum við stjórn FME, en stjórnin hefur beitt ótrúlegum útúrsnúningum og ítrekað lýst því opinberlega yfir að þessi staðfasta afstaða Gunnars ril rangs sakburðar sé sérstök sönnun um sekt hans en ekki sakleysi! Umjóðandi minn lýsir sig hins vegar sekan um þann barnaskap að hafa trúað því eitt augnablik í hita leiksins að réttlætið myndi sigra og Nýja Ísland rísa. Nú veit hann betur. Þjóðkunnt skáld af vinstri vængnum orti eitt sinn þekkt lofkvæði til Sovétríkjanna. Í kvæðinu var spurt; Sovét-Ísland, hvenær kemur þú? Vitum við kannski svarið núna?“ segir lögfræðingur Gunnars í yfirlýsingunni.