Viðskiptablaðið sendi fyrirspurn til tólf fjölmennustu sveitarfélaga landsins þar sem spurt var út í launakjör og bílafríðindi borgar- og bæjarstjóra.

Niðurstaðan er sú að Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, ber höfuð og herðar yfir aðra bæjarstjóra þegar kemur að launakjörum. Heildarlaun Gunnars eru nánast nákvæmlega jafn há og hjá forseta Íslands, eða 1.980 þúsund en forsetinn er með 1.983 þúsund samkvæmt launatöflu kjararáðs.

Auk þess a vera með tæpar 2 milljónir í heildarlaun er Gunnar með Toyota Land Cruiser jeppa til afnota. Jeppinn er reyndar orðinn 10 ára gamall en bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti á dögunum 11 milljóna króna fjárveitingu til kaupa á nýjum Toyota Land Cruiser fyrir bæjarstjórann. Af þessum tæpu 2 milljónum sem Gunnar hefur í laun eru tæp 160 þúsund vegna setu í bæjarstjórn. Gunnar er varabæjarfulltrúi en skömmu fyrir áramót tók hann sæti í bæjarstjórn fyrir Almar Guðmundsson, sem er í leyfi til 31. júlí næstkomandi. Eftir þann tíma verður Gunnar með ríflega 1.820 þúsund krónur í heildarlaun.

Sá bæjarstjóri, af þessum tólf, sem hefur lægstu launin er Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Hann er rétt rúmlega hálfdrættingur á við bæjarstjórann í Garðabæ, með 1.088 þúsund krónur í heildarlaun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .