Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi, og Sigrún Ágústa Bragadóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar, voru í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmd til að greiða hvort um sig 150 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs vegna lána sem lífeyrissjóðurinn veitti bænum. Gunnar var á þessum tíma jafnframt stjórnarformaður lífeyrissjóðsins. Lánin voru veitt sjö sinnum frá í október árið 2008 og fram í maí árið eftir. Samtals námu lánveitingarnar tæpum 1,7 milljörðum króna. Þau verða að greiða sektina innan fjögurra vikna ellegar sæta fangelsi í 12 daga.

Þau Flóki Eiríksson, Jón Júlíusson, Ómar Stefánsson og Sigrún Guðmundsdóttir sem jafnframt áttu sæti í stjórn lífeyrissjóðsins voru hins vegar sýknuð.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að lánin hafi verið endurgreidd ásamt vöxtum. Lánin báru 18,4 til 20,5% vexti.