„Ég sá að þetta var miklu, miklu meiri vinna en ég hafði gert mér í hugarlund en auk þess er ég sjálfur í verkefnum sem eru að mestu leyti erlendis," segir Gunnar Örn Kristjánsson endurskoðandi sem óskaði í morgun eftir því að láta af störfum sem formaður bankaráðs Kaupþings. Hann var skipaður í ráðið á mánudag.

Gunnar Örn segir að ástæðan sé fyrst og fremst mikil vinna. „Einnig fór ég að heyra einhver leiðindi um mitt mál á sínum tíma og ég nenni ekki að taka þann slag aftur," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann vísar þar til ákæru vegna starfa sinna sem endurskoðandi hjá Tryggingasjóði lækna en framkvæmdastjóri sjóðsins var sakaður um fjárdrátt. Gunnar Örn var sýknaður af því máli í héraðsdómi og í Hæstarétti.

Þegar hann er spurður hvort hann hafi ekki áttað sig á því hve starfið í bankaráðinu væri viðamikið áður en hann tók það að sér svarar hann. „Þá lá ekki fyrir hvað þetta væri mikil vinna. Maður þarf líka að vera mikið á staðnum."

Inntur álits á því hvort erfitt gæti reynst að fá menn í verkið svarar hann: „Menn þurfa, held ég, að hafa mikinn tíma og vilja til þess að fara í gegnum þessa hluti."

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að ráðherra hafi fallist á beiðni Gunnars Arnar og að nýr fulltrúi verði skipaður í ráðið í hans stað hið fyrsta.