Gunnar Páll Pálsson, formaður VR hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna þeirrar umfjöllunar sem átt hefur sér stað um störf hans í stjórn Kaupþings.

Yfirlýsingin er hér birt í heild sinni:

Töluvert hefur verið fjallað um aðkomu mína að þeirri ákvörðun stjórnar Kaupþings að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna bankans vegna lána sem tekin voru vegna kaupréttarsamninga.

Í ljósi umræðunnar finnst rétt og eðlilegt að ég geri grein fyrir þeim áherslum sem ég hafði að leiðarljósi meðan ég sat í stjórn bankans.

Ég var kosinn í stjórn Kaupþings í apríl 2001. Þá höfðu lífeyrissjóðirnir fjárfest umtalsvert í bankanum og því þótti eðlilegt að fulltrúi þeirra tæki sæti í stjórn hans.

Mér fannst ekki stætt á öðru en þiggja stjórnarsetuna til þess að standa vörð um hagsmuni sjóðanna, ekki síst Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Eins og kunnugt er fóru miklir uppgangstímar í hönd með launagreiðslum sem voru þvert á launastefnu VR.

Því gat ég ekki annað en setið hjá við atkvæðagreiðslu stjórnar um verulegar launahækkanir og kaupréttatákvæði til stjórnenda bankans og lét færa til bókar á stjórnarfundi 6. nóvember 2003 að ég gæti ekki stutt þess ákvörðun.

Ákvörðunin var engu að síður samþykkt af meirihluta stjórnarinnar.  Lagði ég þá til að ákvörðunin yrði lögð fyrir hluthafa sem var gert og var hún samþykkt mótakvæðalaust á aðalfundi bankans árið 2004.

Á þessum tíma lá ég ekki á skoðunum mínum og ritaði m.a. tvo leiðara í VR blaðið um laun æðstu stjórnenda fyrirtækja, í febrúar 2004 og í maí 2006, auk greinar í Morgunblaðið  22. júlí 2006 um lýðræði í lífeyrissjóðunum.

Þrátt fyrir fyrrnefnda bókun mína og skrif kom fram gagnrýni á setu mína í stjórn bankans, einkanlega vegna þeirra launakjara sem þar voru í boði. Það var erfitt að vinna að heilindum fyrir VR og sitja um leið undir gagnrýni. Ég taldi þá rétt að aðrir en ég tækju ákvörðun um áframhaldandi stjórnarsetu mína bankanum.

Samkvæmt lýðræðislegum starfsháttum VR bar ég það upp á fundi trúnaðarráðs og trúnaðarmanna VR í janúar 2004 hvort ég nyti traust til setu í stjórnum fyrirtækja og banka fyrir hönd lífeyrissjóðsins.

Niðurstaðan var afgerandi, rúmlega 70% fundarmanna töldu að formaður VR ætti að standa vörð um hagsmuni lífeyrissjóðsins og þá um leið félagsmanna í VR.

Í skjóli þessa traust félaga minna hélt ég áfram stjórnarsetu í Kaupþingi.

Samkvæmt samþykki stjórnar og aðalfundar Kaupþing voru hagsmunir bankans tengdir við hagsmuni starfsmanna með þeim kaupréttarákvæðum sem ég greiddi ekki atkvæði með.

Á stjórnarfundinum 25. september sl. þegar forstjóra bankans var heimilað að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna bankans samþykkti ég þá ákvörðun með hagsmuni umbjóðenda minna að leiðarljósi, en á þeim tíma var eign lífeyrissjóðanna í bankanum um 60 milljarðar króna og þá eign bar mér að verja.

Ákvörðunin var tekin til þess að koma í veg fyrir að starfsmenn seldu bréf sín en það var talið geta skaðað bankann á þessum viðkvæma tímapunkti. Þegar þessi ákvörðun var tekin voru engin teikn á lofti um það sem síðar gerðist. Þeir stjórnarmenn sem áttu hagsmuna að gæta viku af fundi meðan ákvörðunin var tekin.

Á fundinum sem tók þessa ákvörðun voru þrír lögfræðingar, Helgi Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður og lögfræðingur bankans,  stjórnarmennirnir Ásgeir Thoroddsen hæstaréttarlögmaður og Bjarnfreður H. Ólafsson, héraðsdómslögmaður og töldu þeir ákvörðunina lögmæta. Hafði ég enga ástæðu til að véfengja álit þeirra. En rétt er að geta að síðar hafa fleiri lögfræðingar tekið undir skoðun þeirra.

Ákvarðanir eru teknar miðað við þær forsendur sem liggja fyrir á hverjum tíma. Ég er þeirrar skoðunar að þessi ákvörðun hafi verið rétt þegar hún var tekin. Staða Kaupþings var sterk og eignir starfsmannanna að ég best vissi hærri en skuldir þeirra og bankanum lítil hætta búin þótt gengi bréfanna hefði fallið um einhver prósentustig til viðbótar.

Óeðlilegt er að meta þessa ákvörðun stjórnar Kaupþings í ljósi þess sem síðar gerðist með setningu neyðarlaga og gjörbreyttu starfsumhverfi bankans.

Fram hefur komið að konan mín og ég áttum hlutabréf í Kaupþingi. Í hlutafjáraukningu Kaupþings á árinu 2004 keypti ég hlutabréf fyrir 123.000 krónur og eiginkona mín fyrir 340.000 krónur. Að auki varði ég launum mínum sem stjórnarmaður í Kaupþingi til hlutafjarkaupa í bankanum.

Við hjónin áttum samtals rúmlega 8 milljónir króna í hlutabréfum í Kaupþingi  við fall bankans. Þessi hlutabréf voru að fullu greidd og engin lán tekin við kaup þeirra og þar af leiðandi engar ábyrgðir feldar niður.

Ég mun áfram starfa að heilindum fyrir félagsmenn VR og met mikils þann stuðning sem ég hef fengið bæði frá stjórn, trúnaðarráði og trúnaðarmönnum og fjölda félagsmanna.

Ýmsir félagsmenn hafa gagnrýnt ákvörðun mína en ég hef reynt eftir fremst megni að svara spurningum þeirra og athugasemdum á heiðarlegan hátt. Því mun ég halda áfram á næstunni auk þess að ræða opinskátt við VR félaga á vinnustaðafundum.

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR.