*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Fólk 3. júlí 2019 11:38

Gunnar ráðinn aðstoðarhafnarstjóri

Faxaflóahafnir hafa ráðið Gunnar Tryggvason, fyrrum aðstoðarmann ráðherra Samfylkingar og fjármálastjóra Allrahanda Gray Line.

Ritstjórn
Gunnar Tryggvason var áður aðstoðarmaður Oddnýjar Harðardóttur.
Haraldur Guðjónsson

Gunnar Tryggvason, rafmagnsverkfræðingur hefur verið ráðinn sem aðstoðarhafnarstjóri Faxaflóahafna.  Hann hefur störf 1. september en alls bárust 16 umsóknir um starfið.  

Gunnar er með B.Sc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá HÍ og Dipl.Ing gráðu í raforkuverkfræði frá Karlsruhe háskólanum í Þýskalandi. Gunnar sem fæddur er árið 1969, er sagður hafa þekkingu og reynslu á rekstri, stjórnun, fjármálum og verkfræði á vef Faxaflóahafna.

Síðustu ár hefur Gunnar starfað sem fjármálastjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri Allrahanda Gray Line ehf, en um tíma var hann aðstoðarmaður Oddnýjar Harðardóttur fjármálaráðherra og þingmanns Samfylkingar í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Áður starfaði hann hjá KPMG þar sem hann sérhæfði sig m.a. á sviði orku- og iðnaðarmála.