Gunnar Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Virðingar hf., en Gunnar hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan 2015. Þá hefur Bjarki Logason verið ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar, en hann hefur starfað hjá Virðingu og áður Auði Capital frá árinu 2009.

„Gunnar stýrir skrifstofu okkar í Lundúnum og verður skrifstofan þar nú færð stjórnunarlega undir fyrirtækjaráðgjöfina. Gunnar hefur aðstöðu í báðum löndum en hann og Bjarki munu sameiginlega stýra rekstri einingarinnar“ segir Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar í frétt á vef fyrirtækisins.

Gunnar hefur viðamikla reynslu af fjármálamörkuðum. Hann starfaði á árunum 2004 – 2015 í Bretlandi, fyrsti hjá Baugi Group og síðar sem ráðgjafi, t.d. fyrir skilanefnd Landsbankans varðandi eignir bankans í Bretlandi. Áður en hann tók við skrifstofu Virðingar í Lundúnum var hann á framtakssjóðasviði fyrirtækisins og sat í ýmum stjórnum.

Bjarki Logason
Bjarki Logason
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Bjarki hefur undanfarin ár komið að öllum stærri verkefnum fyrirtækjaráðgjafar félagsins og býr að viðamikilli reynslu sem mun nýtast í nýju starfi.

„Verkefnastaða Virðingar í Lundúnum hefur aukist jafnt og þétt frá því að skrifstofan opnaði og samvinna við fyrirtækjaráðgjöf Virðingar hér heima aukist stöðugt. Það er því rökrétt skref að efla fyrirtækjaráðgjöfina með þessum hætti og framundan er enn frekari styrking á þessu sviði,“ segir Hannes Frímann.