© Aðsend mynd (AÐSEND)

Gunnar Leó Gunnarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri DK hugbúnaðar. Gunnar Leó er með BS gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og MBA frá alþjóðlega viðskiptaháskólanum ISG í París. Gunnar tekur við starfinu af Haraldi Flosa Tryggvasyni, sem hefur gegnt starfinu tímabundið síðastliðna fjóra mánuði á meðan nýs framkvæmdastjóra hefur verið leitað.

Fram kemur í tilkynningu að Gunnar Leó hefur víðtæka reynslu í upplýsingatækni. Hann starfaði um árabil hjá Tæknivali, Kerfi og OZ. Þá var hann framkvæmdastjóri Eskils og sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf hjá Landsbanka Íslands. Hann var einnig forstjóri hjá fjárfestingafélaginu Nordic Partners og leiddi fjárfestingar þess. Undanfarið hefur hann starfað sjálfstætt við ráðgjöf í upplýsingatækni, stjórnun og rekstri. Á síðasta ári stofnaði Gunnar Leó ásamt öðrum fyrirtækið Blueprint ehf. sem sérhæfir sig í viðskiptagreind og áætlanagerð.

DK hugbúnaður ehf. var stofnað árið 1998 og framleiðir fyrirtækið íslenskan viðskiptahugbúnað.