*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Fólk 10. febrúar 2014 13:40

Gunnar ráðinn til að stýra DK hugbúnaði

Gunnar Leó Gunnarsson tekur við sem framkvæmdastjór DK hugbúnaðar.

Ritstjórn

Gunnar Leó Gunnarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri DK hugbúnaðar. Gunnar Leó er með BS gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og MBA frá alþjóðlega viðskiptaháskólanum ISG í París. Gunnar tekur við starfinu af Haraldi Flosa Tryggvasyni, sem hefur gegnt starfinu tímabundið síðastliðna fjóra mánuði á meðan nýs framkvæmdastjóra hefur verið leitað. 

Fram kemur í tilkynningu að Gunnar Leó hefur víðtæka reynslu í upplýsingatækni. Hann starfaði um árabil hjá Tæknivali, Kerfi og OZ. Þá var hann framkvæmdastjóri Eskils og sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf hjá Landsbanka Íslands. Hann var einnig forstjóri hjá fjárfestingafélaginu Nordic Partners og leiddi fjárfestingar þess. Undanfarið hefur hann starfað sjálfstætt við ráðgjöf í upplýsingatækni, stjórnun og rekstri. Á síðasta ári stofnaði Gunnar Leó ásamt öðrum fyrirtækið Blueprint ehf. sem sérhæfir sig í viðskiptagreind og áætlanagerð.

DK hugbúnaður ehf. var stofnað árið 1998 og framleiðir fyrirtækið íslenskan viðskiptahugbúnað.