Gunnar Þór Gestsson hugbúnaðarsérfræðingur sem starfar á starfsstöð Advania á Sauðárkróki fékk á dögunum hina virtu MVP-vottun Microsoft. Tiltölulega fáir notendasamfélags Microsoft fá vottun sem þessa. Gunnar hefur frá árinu 2010 haldið úti bloggi á slóðinni Dynamics.is og veitir þar ýmsa leiðsögn um NAV-viðskiptalausn Microsoft. Gunnar er sömuleiðis virkur á notendavefnum Mibuso.com sem helgaður er viðskiptalausnum frá Microsoft.

Fram kemur í tilkynningu frá Advania, að vefur Gunanrs sé sannkallaður þekkingarbrunnur fyrir NAV-notendur út um allan heim en um 300-400 manns lesa vefinn á hverjum virkum degi. Gunnar er sérfræðingur í Microsoft Dynamics NAV viðskiptalausn en hana nota hátt í hundrað þúsund fyrirtæki á heimsvísu. Hann fær MVP vottun sína fyrir framlag sitt til NAV notendasamfélagsins, að því er segir í tilkynningu Advania.

Gunnar segir í tilkynningunni:

„Ég hlustaði á fyrirlestur um samfélagsmiðla á Haustráðstefnu Skýrr haustið 2010 og í framhaldi af því ákvað ég að gera mig og mína þekkingu sýnilega.  Ég byrjaði að skrifa og vefurinn náði hægt og bítandi að verða þekktur í sérfræðingaheimi NAV.  Þegar þessu skrefi var náð þá fór ég að kynna mér hvað þessi MVP vottun var og ákvað að leggja mig fram um að ná henni.  Að halda henni verður ekki minna mál en það er að sjálfsögðu stefnan hjá mér. Mér finnst mjög skemmtilegt að kenna og hjálpa öðrum notendum að leysa verkefni.“