Breskir fjölmiðlar hafa sagt frá því að Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs í Bretlandi, hafi átt fundi með stjórnarformanni bresku verslunarkeðjunnar Moss Bros í síðustu viku um hugsanleg kaup Baugs á félaginu.

Viðskiptablaðið greindi frá því á þriðjudaginn í síðustu viku að gengi hlutabréfa Moss Bros hefði hækkað vegna hugsanlegs áhuga Baugs á Moss Bros og íslenska fyrirtækið var aftur orðað við breska fyrirtækið um helgina.

Unity-fjárfestingasjóðurinn, sem er í eigu Baugs, FL Group og Kevin Stanford, heldur utan um 28,2% í Moss Bros, en auk þess á Stanford, sem stofnaði meðal annars Karen Millen-verslunarkeðjuna, sjálfur um 6,5%. Breska blaðið The Daily Mail segir að Stanford hafi haft frumkvæðið að viðræðum við Moss Bros.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fundaði Gunnar ekki með Keith Hamill, stjórnarformanni Moss Bros, í síðustu viku um hugsanleg kaup á félaginu en heimildarmenn blaðsins segja Baug þó vera að skoða ýmis tækifæri í Bretlandi líkt og áður.

Félagið samþykkti nýverið að kaupa bresku stórverslunarkeðjuna House of Fraser fyrir um 453 milljónir punda, sem samsvarar um 58 milljörðum króna, ásamt skuldum í samvinnu við fleiri fjárfesta. Talið er að Hamill vilji fá um 80 milljónir punda fyrir Moss Bros, en markaðsvirði fyrirtækisins, sem er skráð á hlutabréfamarkað í London, er um 69 milljónir punda.

Baugur, ásamt eignarhaldsfélaginu Fons, hefur einnig verið orðaður við hugsanleg kaup á breska súkkulaðiframleiðandanum Thorntons og sérfræðingar telja að hagstætt sé að sameina félagið heilsuvöruverslunarkeðjunni Julian Graves og kaffi- og teverslunarkeðjunni Whittard of Chelsea, sem er að miklu leyti í eigu Baugs og Fons. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja þó að áhuginn á Thorntons hafi dvínað, en gengi hlutabréfa félagins hefur hækkað verulega síðan orðrómurinn fór fyrst á kreik í byrjun árs.