Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Baugs, hefur verið valinn stjórnarformaður Hamleys. Þetta gerist í framhaldi af breytingum á stjórn þar sem tveir stjórnarmenn hurfu á braut ásamt um tuttugu manns úr höfuðstöðvum félagsins, að því er segir í Retail Week.

Þar kemur einnig fram að Baugur hafi átt meirihluta hlutabréfa í Hamleys þar til Baugur féll fyrr á árinu. Hlutabréfin séu nú undir stjórn Landsbankans. Þá segir að talið sé að bréf Fons í Hamleys séu undir stjórn Kaupþings.

Í fréttinni segir að Guðjón Reynisson, framkvæmdastjóri Hamleys, hafi neitað að tjá sig um ástæður þess að Gunnar hafi verið valinn, en að þekkt sé að þeir tveir séu vinir. Guðjón hafi stýrt Baugsverslununum 10-11 áður en hann tók við Hamleys í fyrra.

Í frétt Retal Week kemur fram að Gunnar sé áfram í stjórnum smásala sem Baugur átti í, þeirra á meðal Iceland, House of Fraser, Whistles og Aurum.

Hamleys hefur hægt á vexti sínum, jafnt alþjóðlega sem í Bretlandi. Engu að síður eru uppi áform um að opna verslanir í Glasgow, Mumbai og Moskvu á þessu ári.