Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar hefur Gunnar Smári Egilsson, forstjóri Dagsbrúnar, keypt 30.000.000 hluti í félaginu á genginu 5,54 á hlut. Miðað við það er kaupverðið 166,2 milljónir króna. Kaupin eru gerð í samræmi við kaupréttarsamning og er seljandi Dagsbrún.

Samkvæmt tilkynningunni er fjöldi hluta í eigu Gunnars Smára eftir viðskipti 49.800.000 og miðað við gengi bréfa félagsins nú er verðmæti þess 296,3 milljónir króna. Það sem af er degi hefur Dagsbrún hækkað um 2,06% og er gengi nú 5,95.

Fjöldi hluta í eigu fjárhagslegra tengdra aðila eftir viðskipti er 29.016.986 en Gunnar Smári á Fjárfestingafélagið Selsvör ásamt Árna Haukssyni og Þórdísi Sigurðardóttur.