Gunnar Smári Egilsson, forstjóri Dagsbrúnar, Þórdís J. Sigurðardóttir, stjórnarformaður Dagsbrúnar, og Viðar Þorkelsson, fjármálastjóri Dagsbrúnar, hafa tekið sæti í stjórn breska félagsins Wyndeham Press Group, segir í fréttatilkynningu.

Dagsbrún samþykkti að kaupa Wyndeham, sem sérhæfir sig í útgáfu fagtímarita og gefur út 600 tímarit, í mars fyrir 81 milljón punda, sem samsvarar um 11 milljörðum króna. Landsbanki Íslands sá um fjármögnun og styður við kaupin með um 162 milljón punda sambankaláni.

Þeir stjórnarmenn í Wyndeham sem hafa sagt sig úr stjórn eru Anthony Austin, Edward Heron, Peter Barber, John Flavell og John Jeremy. Ekki kemur fram í fréttatilkynningu frá Wyndeham hvort að það sé búið að skipa fleiri stjórnarmenn til að sitja í stjórn Wyndeham ásamt Gunnari Smára, Þórdísi og Viðari.