Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor segir Gunnar Smára Egilsson tala eins og Castro bræður og Cháves sem gerði auðugasta ríki Suður Ameríku að því fátækasta.

Hann veltir fyrir sér hve alvarlega sé hægt að taka stjórnmálaflokk gegn auðvaldi frá manni sem þáði brauðmola af borðum Jóns Ásgeirs.

Hafnar því að fylgja brauðmolakenningu

„Ég er ekki fylgismaður neinnar brauðmolakenningar,“ segir Hannes Hólmsteinn vegna ummæla Gunnars Smára sem Viðskiptablaðið hefur fjallað um , þess efnis að Hannes sé sérlegur talsmaður þeirrar stefnu.

„Ég skrifa hins vegar fróðleiksmola í hverri viku í Morgunblaðinu. Gunnar Smári hlýtur í mínu dæmi að hafa ruglast á brauðmolum og fróðleiksmolum.

En ég hef hins vegar haldið því fram í fjörutíu ár, að kerfi samkeppni og séreignar sé öllum í hag, ekki síst þeim, sem minna mega sín og hafa þó metnað til að bæta kjör sín.“

Hinir verst settu best settir í frjálsum hagkerfum

Hannes segir þann hóp sem Gunnar Smári slær sér nú á brjóst og þykist geta talað fyrir eru hvergi betur settir en í frjálsum hagkerfum.

„Þetta sýna alþjóðlegar mælingar, má þar nefna vísitölu atvinnufrelsis, sem fletta má upp á heimasíðu Fraser stofnunarinnar í Vancouver,“ segir Hannes. „Þar sést glögglega, að hinir verst settu eru þrátt fyrir allt hvergi betur settir en í hinum frjálsu hagkerfum.

Aðalatriðið er ekki að auðvelda mönnum að sitja föstum í fátækt, heldur að auðvelda þeim að brjótast út úr fátækt og komast í bjargálnir, og það fæst með fjölgun tækifæra, og slíkum tækifærum fjölgar, þegar atvinnulífið vex, með öðrum orðum þegar hagvöxtur er ör.

Hagkerfi, þar sem margir lifa á bótum, sem eru fengnar með sköttum frá öðrum, hættir að vera sjálfbært, eins og Svíar uppgötvuðu upp úr 1990, og þá breyttu þeir um stefnu. Hverjir eiga að greiða skattana, ef flestir eru á bótum?“

Aldrei minni fátækt í heiminum

Hannes segir að stórkostlegar breytingar til hins betra hafi sést síðustu áratugi um allan heim. „Fátækt hefur aldrei verið minni í heiminum, þótt auðvitað sé hún allt of mikil í ýmsum suðrænum löndum,“ segir Hannes.

„Þegar litið er yfir heiminn allan, hefur tekjudreifingin jafnast, því að hundruð milljóna Kínverja og Indverja hafa brotist úr örbirgð. Frjáls verslun hefur unnið kraftaverk og auðveldað hagkvæma verkaskiptingu milli einstaklinga og þjóða.

Aðgangur að hreinu vatni og læknisþjónustu er jafnt og þétt að verða auðveldari. Matt Ridley skrifar um þetta allt í bókinni Heimur batnandi fer.“

Talar eins og Cháves og Castro-bræður

Hannes segist aðspurður ekki vita hversu alvarlega eigi að taka nýjasta ævintýri Gunnars Smára. „Hann þáði um árabil brauðmola, sem hrukku af borði Jóns Ásgeirs, en tókst í leiðinni að tapa fyrir honum hátt í tíu milljörðum króna í blaðaævintýri í Danmörku,“ segir Hannes.

„Síðan gekk hann í félag múslima á Íslandi. Þá vildi hann, að Ísland yrði hluti af Noregi og legði niður sjálfstætt ríki áttum við þá með öðrum orðum að hirða brauðmola af borði Norðmanna. Og núna talar hann nákvæmlega eins og þeir Castro-bræður á Kúbu og Hugo Chávez í Venesúela.

Chávez tókst að breyta einu auðugasta landi Rómönsku Ameríku í eitt hið fátækasta, og þegar illa gekk, öskruðu hann og eftirmaður hans: Skemmdarverk! og handtóku andstæðinga sína. Þetta var brennuvargur að gera hróp að slökkviliði.“

Brauðhleifskenning Gunnars Smára

Hannes veltir því fyrir sér hvort Gunnar Smári aðhyllist einhvers konar brauðhleifskenningar sem felist í að skipta eigi brauðhleifnum öðruvísi.

„Að það eigi að minnka sneiðar sumra, en stækka sneiðar annarra,“ segir Hannes. „Hann áttar sig ekki á, að brauðhleifurinn er ekki föst stærð. Hann verður því minni sem reynt er að endurskipta honum af meiri hörku. Hann verður því stærri sem baksturinn er auðveldaður.

Gunnar Smári horfir á brauðhleif, sem þegar hefur verið bakaður. Ég horfi á bakaríið, sem er að baka brauð. Það þarf að vera í fullum gangi og borga sig, og þá stækka brauðhleifarnir, meira verður til skiptanna.

Fagnar komu enn eins vinstri flokksins

Aðalatriðið er sköpun verðmætanna, og síðast skiptast þau á menn í frjálsum viðskiptum, í eðlilegri og ofbeldislausri þróun.

Annars þykir mér svo vænt um vinstri flokka, að ég vil, að þeir verði sem flestir. Þess vegna fagna ég því, ef nú kemur enn einn slíkur flokkur til sögunnar.“