Gunnar Sturluson, framkvæmdarstjóri Logos lögmannsstofu, segir að frétt sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag sé byggð á misminni stjórnarmannsins Einars Ólafssonar og eigi því ekki við nein rök að styðjast.

Í Viðskiptablaðinu í dag segir Einar að fundargerð stjórnar FL Group þann 21. október 2005 sé fölsuð, að hann hafi verið á stjórnarfundinum en ekki forfallaður líkt og skráð er.

Hann hefur nú sagt að svo virðist sem rétt sé að hann hafi ekki verið á fundinum þann 21. október. Eftir besta minni sé frásögn hans sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag af fundi sem haldinn var 20. október.

Hann segir að hið rétta sé að hann hafi ekki verið boðaður á fundinn þann 21. október.

Ritaði fundargerðina

Gunnar ritaði fundargerðina og segir hana hafa verið gerða eftir bestu vitneskju. „Ég skrifaði fundargerðina og get þess þar að Einar hafi boðað forföll. Þar skrifa ég eftir minni bestu vitneskju sem ég fæ frá stjórnendum félagsins sem sitja fundinn. Ég er þarna sem starfsmaður fundarins og held því saman sem ég er beðinn um að bóka,“ segir Gunnar í samtali við Viðskiptablaðið.

Gunnar segir því rétt að Einar hafi ekki verið á fundinum 21. október.

„Einar sat stjórnarfund þar sem kaupin á Sterling voru rædd þann 20. október 2005 og um nærveru hans var réttilega getið í fundargerð þess fundar. Þeim fundi var svo frestað kl. 22:20 til næsta dags og var fundi fram haldið kl. 17:00 þann 21. október.  Einar sat hins vegar ekki þann stjórnarfund, en á honum var tekin ákvörðun í málinu.  Á þann fund boðaði hann forföll og þeirra var réttilega getið í fundargerð.“