„Ég get staðfest að stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur sent lögmanni forstjóra bréf. Við veitum honum viðbótarfrest til loka næstkomandi þriðjudags,“ segir Aðalsteinn Leifsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, FME. Fresturinn sem forstjórinn Gunnar Þ. Andersen og lögmaður hans fá til að svara andmælum við uppsögn Gunnars miðast við þrjá virka daga frá og með deginum í dag og til klukkan fjögur á þriðjudag.

Ekki liggur fyrir hvort lögmaður Gunnar Þ. Andersen hafi óskað eftir lengri fresti en það.

Fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag að stjórn FME og Gunnar hafi frá því á föstudag í síðustu viku skrifast á og deilt um lögmæti uppsagnar Gunnars. Frestur til andmæla var framlengdur til dagsins í dag. Gunnar telur þann frest hins vegar ekki byrja að líða fyrr en skýr svör fáist frá FME um ástæðu uppsagnarinnar.

Síðastliðinn fimmtudag tilkynnti stjórn eftirlitsins Gunnari að hún hefði það til skoðunar að ganga frá starfslokum hans. Ákveðið hafi verið að hann fengi frest til mánudags til að skila andmælum. Föstudaginn síðasta, 17. febrúar, tók málið hins vegar öllu harðari stefnu. Stjórnin sendi þá Gunnari bréf þar sem segir að af bréfi lögmanns Gunnars megi ráða að hann hafi ekki hug á að hafa samstarf um lyktir mála. Gunnari var tilkynnt um þá fyrirætlan stjórnar að segja honum upp störfum.

Aðalsteinn segir í samtali við Viðskiptablaðið að Gunnar hafi með bréfinu sl. föstudag ekki verið rekinn. Honum hafi verið tilkynnt að hans mál séu til athugunar með tilliti til mögulegrar uppsagnar ráðningarsamnings. Hann segir óheppilegt að fréttir af málinu hafi verið á þann veg að Gunnar hafi verið rekinn. Enn fremur segir hann umfjöllunina ekki að undirlagi stjórnar FME og að hún sé óheppileg fyrir starfsemi stofnunarinnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.