Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir stjórn FME hafa leitað lögfræðinga til að vinna fyrir sig annað álit um hæfi sitt á meðan lögmaðurinn Andri Árnason vann sitt mat.

Stjórn FME tilkynnti Gunnari á fimmtudag í síðustu viku að hún hefði það til skoðunar að ganga frá starfslokum hans í kjölfar nýrra upplýsinga sem fram komu um hæfi hans sem forstjóra FME í úttekt sem þeir Ástráður Haraldsson og Ásbjörn Björnsson skiluðu af sér fyrr í mánuðinu. Fékk Gunnar frest til mánudags til að skila andmælum gegn því. Fjölmiðlar greindu frá uppsögninni fyrir viku. Framlengdur frestur til andmæla rann út í gær og sendi stjórn FME Skúla Bjarnasyni, lögfræðingi Gunnars, bréf í gær þar sem fram kemur að frestur verði gefinn fram á þriðjudag í næstu viku.

Segir sígaunakonu betri en Ástráð

Gunnar segir í viðtalið sem DV birtir í dag vita um einn lögfræðingur sem stjórnin hafi leitað til hefði skoðað málið og lesið álitsgerð Andra. Hann hafi ekkert nýtt séð í henni og komist að þeirri niðurstöðu að hún væri vel unnin.

„Sá hinn sami sagði nei takk. En áfram var leitað og einn fannst. Það var Ástráður Haraldsson. Ef þú færð ekki svarið sem þú vilt þá spyrðu einhvern annan,“ segir Gunnar í samtali við DV.

Hann heldur áfram: „Ástráður komst að sömu niðurstöðu, ekkert lögbrot eða annað slíkt. Hins vegar kom huglægt mat. Ég tel að það hafi verið pantað. Það er að minnsta kosti erfitt að telja mér trú um annað en að það hafi verið pantað því þarna er huglægt mat lagt fram af lögfræðingi sem er mjög óeðlilegt. Því ekki eru þeir sérfræðingar í slíku. Betra hefði verið að fá heimspeking, siðfræðing, prest eða miðil, eða sígaunakonu eða eitthvað slíkt.“

Viðtal Gunnars við DV má lesa hér