Gunnhildur Arnardóttir, einn af stofnendum og framkvæmdastjóri CEO Huxunar, hefur verið valin EMBLA ársins 2015 segir í fréttatilkynningu samtakanna. EMBLUR eru félagsskapur kvenna sem útskrifast hafa með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

,,Við valið var litið til þess að Gunnhildur Arnardóttir er kraftmikill stjórnandi og margverðlaunaður mannauðsstjóri hér á landi. Gunnhildur Arnardóttir er einstök kona sem hefur unnið mikið brautryðjandastarf á sínu sviði. Það vóg þungt að mati dómnefndar að hún er mjög uppbyggjandi og hvetjandi manneskja sem leggur sig fram um að styðja vel við aðra í kringum sig. Einnig þykir hún hafa sýnt mikla hæfileika til nýsköpunar með mælitæki því sem CEO Huxun býður upp á – mánaðarlegar árangursmælingar. En þess má geta að mörg af virtustu fyrirtækjum og stofnunum landsins nýta mælitækið mánaðarlega til að mæla ánægju starfsmanna. Fyrirtæki hafi komið fram opinberlega og þakkað mælitækinu árangur sinn í mannauðsstjórnun, þar má nefna Einkaleyfastofu, Ölgerðina og Landsbankann svo eitthvað sé nefnt.“

Gunnhildur hefur einnig stýrt Stjórnvísi undanfarin ár. Hún hefur byggt upp öflugt samstarf fyrirtækja með því að stuðla að framþróun, nýsköpun og aukinni tengslamyndun á milli fyrirtækja.

Sex aðrar Emblur fengu tilnefningu í ár:

Lukka (Unnur) Pálsdóttir, Stofnandi og eigandi heilsuveitingarstaðarins Happ.

Hulda Bjarnadóttir, Fjölmiðlakona, framkvæmdastjóri FKA og stjórnarkona.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, Forstjóri VÍS.

Kolbrún Hrafnkelsdóttir, Formaður Emblna, Stofnandi og forstjóri lyfjafyrirtækisins Herberia.

Guðrún Valdimarsdóttir, aðstoðarforstjóri WOW air.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Fjárfestir, formaður FKA og eigandi Pizza Hut.