Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, blaðamaður á Fréttatímanum, hefur verið ráðin í starf upplýsingafulltrúa Símans. Hún tekur við starfinu af Margréti Stefánsdóttur. Þá hefur Pétur Þ. Óskarsson, fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi Framtakssjóðsins, hafið störf hjá Símanum. Hann verður framkvæmdstjóri Stjórnunar- og samskiptasviðs Símans.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir er fyrrum ritstjóri og fréttastjóri dagblaðsins 24 stunda, kvöldfréttastjóri á Morgunblaðinu og blaðamaður og vaktstjóri á Fréttablaðinu. Hún hóf störf hjá Símanum í dag, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Margrét sagði starfi sínu lausu í sumar og hættir nú um mánaðamótin. Margrét ætlar að taka þátt í rekstri Íslandsfunda, ferðaþjónustufyrirtækis sem fjölskylda hennar rekur.