Gunnlaugur Árnason, blaðamaður Reuters-fréttasamsteypunnar í London, hefur verið ráðinn ritstjóri Viðskiptablaðsins. Hann mun hefja störf í byrjun komandi mánaðar. Gunnlaugur mun móta ritstjórnarstefnu Viðskiptablaðsins, stjórna fréttaflutningi þess og þróa blaðið samhliða nýrri þjónustu við áskrifendur.

Gunnlaugur hefur víðtæka reynslu af blaðamennsku bæði austanhafs og vestan. Frá október 2001 hefur hann unnið hjá Reuters í London, sérhæft sig í fjármálafréttum, og einnig skrifað fyrir aðrar upplýsingaveitur Reuters, þar á meðal Loan Pricing Corp. og Basis Point. Þá annaðist Gunnlaugur um tíma almennar fréttir, viðskipta- og stjórnmálafréttir frá Íslandi fyrir skrifstofu Reuters í Stokkhólmi.

Áður en Gunnlaugur réðist til Reuters sinnti hann blaðamennsku í lausamennsku samhliða námi í Bretlandi, þar á meðal á bresku dagblöðunum The Guardian og The Independent og hjá BBC Radio 4. Þá hefur Gunnlaugur unnið á tímaritum og blöðum í Bandaríkjunum, jafnt sem blaðamaður og ljósmyndari.

"Þetta er spennandi verkefni að takast á við, enda mikið að gerast í íslensku viðskiptalífi," segir Gunnlaugur. "Viðskiptablaðið hefur verið leiðandi á sínu sviði á Íslandi, og þetta er einstakt tækifæri til þess að þróa og móta blaðið án þess að grafa undan þeim góða grunni sem að það stendur á."

Gunnlaugur er fæddur árið 1974 í Minnesotafylki í Bandaríkjunum. Hann lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1994 og BA prófi í blaðamennsku, heimildaljósmyndun og fjölmiðlafræðum frá Fylkisháskólum Kaliforníu í San Francisco og Sonoma. Árið 2001 lauk hann meistaragráðu í alþjóðlegri blaðamennsku frá Westminster-háskólanum í London.

Gunnlaugur er sonur Árna Árnasonar, rekstrarhagfræðings, og Jóhönnu Gunnlaugsdóttur, bókasafns- og upplýsingafræðings. Árni starfar sem framkvæmdastjóri hjá innflutningsfyrirtækinu Árvík hf., sem hann stofnaði með föður sínum, Guðmundi Árnasyni, árið 1983. Hann var framkvæmdastjóri Verzlunarráðs Íslands frá árinu 1974 til ársins 1986, þegar hann hóf störf sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá BYKO hf. Árni tók við rekstri Árvíkur árið 1991, þegar faðir hans lét af störfum vegna aldurs. Jóhanna er einn af stofnendum ráðgjafafyrirtækisins Gangskör sf. og starfar sem ráðgjafi hjá fyrirtækinu. Hún er einnig lektor í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands.

Maki Gunnlaugs er Svava Kristjánsdóttir, endurskoðandi hjá breska fjárfestingafyrirtækinu Marble Bar Asset Management í London.

Jónas Haraldsson, sem gegnt hefur starfi ritstjóra frá áramótum, tekur við starfi fréttastjóra Viðskiptablaðsins þegar Gunnlaugur kemur til starfa í maí.