Ráðgjafa- og hugbúnaðarfyrirtækið Expectus hefur ráðið til sín tvo nýja ráðgjafa í árangursstjórnun fyrirtækja, þau Margréti Þórólfsdóttur og Gunnlaug Bollason. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Margrét hefur unnið innan bankageirans síðastliðin fimm ár, í áhættustýringu Íslandsbanka og áður hjá Saxo Bank í Kaupmannahöfn. Margrét er með B.A. í viðskiptahagfræði og upplýsingatækni og M.Sc. í stafrænni tækni og stjórnun frá Tækniháskóla Kaupmannahafnar. Hjá Expectus mun Margrét leggja megin áherslu á ráðgjöf til viðskiptavina í tekjueftirliti, áætlanagerð og stjórnendaupplýsingum.

Gunnlaugur hefur yfir 15 ára starfsreynslu af uppbyggingu og rekstri vöruhúsa gagna hjá fyrirtækjum - síðastliðin tvö ár hjá AGR en þar áður hjá Arion banka í sjö ár. Gunnlaugur er með B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Gunnlaugur mun leggja megin áherslu á innleiðingu viðskiptagreindarumhverfis hjá fyrirtækjum og stofnunum.

"Við hjá Expectus höfum sett okkur það markmið að umbylta ákvarðanatöku fyrirtækja á Íslandi, meðal annars með því að tryggja aðgang stjórnenda að réttum gögnum á réttum tíma. Þau Margrét og Gunnlaugur eru frábær viðbót við öflugt ráðgjafateymi Expectus," segir Gunnar Steinn Magnússon, framkvæmdastjóri Expectus, í fréttatilkynningunni.