Angel Gurría framkvæmdastjóri OECD (Efnahags og framfarastofnunarinnar) sagði á ráðstefnu Samkeppniseftirlitsins á Hótel Sögu í morgun að veikt regluverk og ófullnægjandi eftirlit með framkvæmd laganna væru mikilvægir þættir sem hefðu leitt til efnahagskreppunnar í Evrópu. Kreppan væri alvarleg að því leyti að hún stæði enn yfir, störfum fækkaði ennþá og endurreisn efnahagslífsins gengi hægt.

Samkeppniseftirlitsið boðaði til ráðstefnu í dag í tilefni af því að 20 ár eru liðin frá því að samkeppnislöggjöfin tóku fyrst gildi á Íslandi.

Gurría lagði mikla áherslu á mikilvægi samkeppninnar fyrir hagsæld þjóða og færði margvísleg rök fyrir þeirri afstöðu sinni. Hann sagði að samkeppnislöggjöf í hverju landi gæti verið tæknilega fullnægjandi að öllu leyti en hins vegar væri þeim ekki framfylgt af þeim sem ættu að fylgja þeim. Eftirlit væri veikt og siðferði ábótavant. Menn kæmust upp með slæma hegðun.

Framkvæmdastjóri OECD sagði jafnframt að samkeppnislög væru í raun innanríkismál. En aukin alþjóðaviðskipti kölluðu á aukna samvinnu í þessum málaflokki. Fyrirtæki starfi þvert á landamæri og þau megi ekki komast upp með óvandaða viðskiptahætti í einu ríki á meðan þeim er refsað í öðru.

Gurría sagði nú 20 ár frá því að samkeppnislöggjöfin tók fyrst gildi  á Íslandi. Hann vildi læra af árangri Íslendinga á þessu sviði og ekki síður af mistökunum. OECD myndi styðja styrkingu löggjafarinnar hér á landi því betri samkeppnislög þýddi betra líf fyrir borgarana.