Guðrún Agnarsdóttir lætur af störfum sem forstjóri Krabbameinsfélags Íslands um áramótin að eigin ósk. Ekki hefur verið gengið frá ráðningu nýs forstjóra og verður auglýst eftir umsækjendum á næstunni segir í tilkynningu.

Guðrún hefur verið forstjóri Krabbameinsfélagsins frá árinu 1992, eða í 17 ár, en þar á undan átti hún sæti í framkvæmdastjórn Krabbameinsfélagsins í fjögur ár, frá 1988 til 1992.

„Það hafa verið forréttindi að fá að vinna að þessum góða málstað en nú er tímabært að huga að starfslokum,“ segir Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins. „Ég á stóran hóp barnabarna og við hjónin erum skógarbændur fyrir norðan og mér finnst mál að sinna því betur og öðrum áhugamálum.“

Krabbameinsfélagið stendur á vissum tímamótum um þessar mundir þar sem verið er að leggja lokahönd á nýja stefnumótun félagsins. Guðrún segir fara vel á því að nýr forstjóri taki að sér að framkvæma og leiða það umfangsmikla starf sem er framundan. „Við höfum náð miklum árangri á þeim rúmu tveimur áratugum sem ég hef tekið þátt í starfi Krabbameinsfélagsins og það er einlæg ósk mín að félagið megi áfram vaxa og dafna, þjóðinni til heilla.“ Starf forstjóra Krabbameinsfélagsins verður auglýst laust til umsóknar á næstunni.