Guðrún Ýr Gunnarsdóttir mun stýra sameiningarferli Actavis og samheitalyfjastarfsemi alþjóðlega lyfjafyrirtækisins Alpharma, sem fyrirtækið keypti fyrir 810 milljónir Bandaríkjadala (51 milljarð íslenskra króna) fyrr í haust, segir í tilkynningu frá Actavis.

Actavis segir að hlutverk Guðrúnu Ýr sé að leiða verkefnisstjórnunarteymi samþættingarferlisins, sem auk hennar er skipað Guðbjörgu Eddu Eggertdóttur, framkvæmdastjóra sölu til þriðja aðila hjá Actavis, Dough Drysdale frá Alpharma og Jennýju Björgvinsdóttur frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG.

?Þetta er mjög spennandi verkefni og stórt í sniðum,? segir Guðrún Ýr. Hún segir að tækifæri til samlegðar og hagræðingar í rekstri skapist við samþættinguna og framleiðslugeta Actavis muni aukast verulega og mikilvægt að samruninn gangi eins vel fyrir sig og mögulegt sé. ?Ég hlakka til að starfa með stjórnendum úr báðum fyrirtækjunum að þessu viðamikla verkefni," segir Guðrún Ýr.

Guðrún Ýr var áður forstjóri Icepharma. Hún er lyfjafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og með MBA-gráðu frá BI-viðskiptaháskólanum í Ósló í Noregi.

Eftir sameiningun við samheitalyfjaeiningu Alpharma verður Actavis með starfsemi í yfir 30 löndum og starfsmenn þess verða um 10 þúsund. Sameinað félag verður í hópi fimm stærstu samheitalyfjafyrirtækja í heimi með leiðandi stöðu á öllum helstu mörkuðum fyrir samheitalyf, segir í tilkynningu Actavis.

Kaupin eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda og búist er við að gengið verði formlega frá kaupunum í desmeber næstkomandi.