Þann 1. október næstkomandi verða prentfyrirtækin Oddi, Gutenberg og Kassagerðin sameinuð undir nafni Odda.

Sameinað fyrirtæki mun sinna almennri prentun, umbúðaprentun, umbrotsvinnu, prenthönnun og vöruhýsingu.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu.

Þar segir að sameiningin styrki stöðu Odda og gerir fyrirtækinu kleift að bæta enn þjónustu sína við stóra og smáa viðskiptavini.

Samkvæmt tilkynningunni felur sameiningin ekki í sér breytingu á eignarhaldi en fyrirtækin hafa öll verið í eigu Kvosar hf. frá 2006. Þá var framleiðsluhluti félaganna sameinaður og því verður engin breyting þar á.

Þá segir í tilkynningunni að fjárhagur fyrirtækisins er traustur og verkefnastaðan mjög góð. Mannabreytingar verða óverulegar, stjórnunarstörfum fækkar en á móti verður sölustörfum fjölgað.

Nýr framkvæmdastjóri Odda er Jón Ómar Erlingsson.

„Stefnan er einföld. Ef þú ert að leita að prentverki eða umbúðum á leitin að byrja og enda í Odda. Hversu stórt eða smátt sem verkið er þá höfum við réttu lausnirnar,“ segir Jón Ómar í tilkynningunni.

„Sameiningin felur ekki í sér breytingu á framleiðslu og tengiliðir verða þeir sömu og áður, en viðskiptavinir okkar munu finna að við höfum einfaldað skipulag okkar og allt söluferlið verður léttara og skilvirkara.“