*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Fólk 29. mars 2020 19:31

Gutlar á Hammond orgel

Kristinn Harðarson, nýr forstöðumaður hjá ON, segir Austfirðinga hafa alið upp í sér útivistardellu.

Höskuldur Marselíusarson
„Manni leiðist aldrei ef maður getur gripið í hljóðfæri,“ segir nýr forstöðumaður virkjunareksturs hjá Orku náttúrunnar, Kristinn Harðarson, sem starfaði áður í 14 ár hjá Alcoa.
Eyþór Árnason

„Það er mér mikil ánægja að ganga til liðs við Orku náttúrunnar. Fyrirtækið er frumkvöðull á mörgum sviðum í ábyrgri nýtingu jarðvarma. Mikil nýsköpun á sér stað í fyrirtækinu, unnið er að tækniframförum er bæta virkjanareksturinn en einnig er mjög mikill metnaður í umhverfis- og loftslagsmálum," segir Kristinn Harðarson, nýr forstöðumaður virkjanareksturs hjá ON.

„Ég er því spenntur að fá tækifæri til að vinna með því hæfa starfsfólki sem þar starfar. Orka náttúrunnar rekur tvær jarðgufuvirkjanir, á Hellisheiði og Nesjavöllum og vatnsaflsvirkjun í Andakílsá í Borgarfirði, sem framleiða um helming heita vatnsins á höfuðborgarsvæðinu og einnig rafmagn fyrir almennan markað og stórnotendur. Áskoranirnar eru að nokkru leyti sambærilegar og á hinum enda orkuiðnaðarins þar sem ég var að vinna hjá Alcoa Fjarðaáli síðustu 14 ár, aðaláherslan er á öryggismál, lágmörkun umhverfisáhrifa ásamt því að finna leiðir til að bæta reksturinn."

Kristinn er rekstrarverkfræðingur og bjó hann lengst af síðustu árin á Egilstöðum. „Þegar álversverkefnið byrjaði fyrir austan fluttum við fjölskyldan þangað. Það var mikill lærdómur að taka þátt í því að ræsa upp álverið, skilgreina verkferla, byggja upp teymin og vinna markvisst að öryggis- og umhverfismálum, en við fengum mjög sterkt aðhald og þjálfun í því frá móðurfélaginu," segir Kristinn.

„Ég hafði enga tengingu austur þegar við fluttum þangað. Við hjónin höfðum verið í tvö ár erlendis í meistaranámi og þegar við komum heim var verkefnið að fara af stað fyrir austan. Við ákváðum að skella okkur og byrjaði það sem fimm ára plan en við enduðum á að vera í ellefu ár því okkur leið mjög vel fyrir austan. Það var líka gaman að prófa að búa í Danmörku og í Svíþjóð. Þótt það sé bara um hálftími á milli þessara landa þá er menningin ótrúlega ólík, Svíarnir eru heilsufrík og mjög agaðir í því sem þeir gera, en allt er aðeins afslappaðra í Danmörku. Á þeim tíma reyktu Danirnir meira að segja í strætó."

Eiginkona Kristins er Hildur Briem héraðsdómari og saman eiga þau þrjú börn. „Við eigum 9 ára dóttur og tvo syni, sem eru 12 og 16 ára. Fjölskyldan var að vaxa fyrir austan og gott að vera þar með unga krakka enda samfélagið ægilega gott. Austfirðingar eru miklir útivistar- og vélamenn og það var fljótt útskýrt fyrir manni að eiga þyrfti vélsleða og tókst þeim að ala upp í mér hálfgerða útivistardellu. Þess utan blundar í mér mikill tónlistaráhugi, reyni að spila sjálfur á píanó og fylgja með tónlistarnámi krakkana, og svo hef ég ástríðu fyrir því að gutla á Hammond orgel. Manni leiðist aldrei ef maður getur gripið í hljóðfæri, það veitir hugarró."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.