Ritdeila Heiðars Más Guðjónssonar fjárfestis og Gylfa Magnússonar, prófessors í hagfræði og fyrrverandi ráðherra, heldur áfram í Fréttablaðinu í dag þar sem Gylfi svarar Heiðari Má í annað sinn.

Setja Orkuveituna og Reykjavíkurborg í þrot gegn þóknun

Í grein Gylfa segir meðal annars að viðskiptahugmynd Heiðars Más hafi verið í grófum dráttum sú að setja Orkuveituna og Reykjavíkurborg í þrot og endurreisa svo aftur, væntanlega gegn nokkurra milljarða króna þóknun. Áttu að koma að þessu ýmsir erlendir aðilar, ofurlögmenn og vogunarsjóðir, auk Íslendinga. Öllum gekk þeim án efa gott eitt til segir Gylfi. Hann segir sig ekki vita hvernig skipta átti þóknunni en hafi Hreiðar Már ekki ætlað sér neinn hlut, jafnvel fyrir útlagðan kostnað, þá sé það aðdáunarvert örlæti af hans hálfu.

Gylfi skýtur nokkrum skotum að Heiðar Má og segir þessa frumlegu hugmynd hans hafa fengið álíka góðan hljómgrunn og tillaga um einhliða upptöku nýs gjaldmiðils en Heiðar Már hefur verið ötull talsmaður upptöku Kanadadollars. „Ég stöðvaði ekki viðskiptahugmyndina, hún var einfaldlega andvana fædd. Það virðist pennavinur minn eiga erfitt með að sætta sig við," segir Gylf meðal annars.

Gylfi leggur til að þeir skrifist aftur á eftir fimm eða tíu ár. Verði íslenska ríkið, þjóðarbúið eða Orkuveitan farin í þrott þá liggur fyrir að hann hafi haft rétt fyrir sér. Gylfi segir svo að hann muni meira að segja bæta því við að hann telji meiri líkur en minni á að raungengi krónunnar verði hærra en nú.

Hæg heimatök

Gylfi kemur inn á fleira í grein sinni. Heiðar hafði sagt það mistök að færa innlendar eignir þrotabús gamla Landsbankans inn í nýja bankann. Þar séu þeir ósammála en Gylfi segist ekki skilja hvers vegna deilt sé við hann um þetta atriði. Umrætt tilfærsla hafi verið gerð haustið 2008 þar sem Gylfi kom hvergi nærri. Leggur hann til að Heiðar Már ræði við þá sem voru í ríkisstjórn á þeim tíma, enda hæg heimatökin samkvæmt Gylfa.

„Heiðar Már er ósammála mér um ýmsa hluti og gerir mikið úr meintum misskilningi mínum. Honum er það að sjálfsögðu heimilt, hvort sem hann hefur rétt fyrir sér eða ekki. Framvinda mála mun leiða hið rétta í ljós. Sjálfur tel ég mig ekki óskeikulan og hef aldrei haldið því fram. Er ekki páfinn einn óskeikull?" spyr Gylfi að lokum.