Formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson hefur nýtt sér heimild í reglum Alþingis til að ráða sér aðstoðarmann og hefur hann ráðið til þess Gylfa Ólafsson.

Náði ekki kjöri til Alþingis

Gylfi var oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi en náði ekki kjöri til Alþingis. Gylfi hefur sinnt ráðgjafastörfum á Íslandi og Svíþjóð og kennslu í heilsuhagfræði við Háskóla Íslands síðustu ár með fram doktorsnámi í faginu.

Hann er með meistarapróf í hagfræði frá Stokkhólmsháskóla en áður hafði hann lokið grunnskólakennaraprófi frá Háskólanum á Akureyri.

Gylfi var annar stofnenda Vía, nýsköpunarfyrirtækis í skordýraeldi, en það var nýlega lagt niður á grundvelli neikvæðra niðurstaðna úr rannsóknum fyrirtækisins. Gylfi á eins árs gamla dóttur með eiginkonu sinni Tinnu Ólafsdóttur fjölmiðlafræðingi.