„Þetta er uppsafnaður piirringur. Mér hefur fundist flokkurinn hafa gleymt hugsjónum sínum frá því hann komst til valda árið 2007,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Hann segir í samtali við vb.is steininn hafa tekið úr þegar Samfylkingin samþykkti að setja á lífeyrisréttindi vitandi að afleiðingin væri mjög gróft brot á jafnræðisreglu. „Félagar mínir verða að borga þetta í formi lakari réttinda,“ segir Gylfi og bætir við að með úrsögn sinni úr flokknum sé hann að axla ábyrgð.

Hann segir margt gagnrýnivert hjá flokknum. En þegar hann fái það á tilfinninguna að brotið sé á réttindum hans og félaga hans í ASÍ þá sjái hann ekki annað fært í stöðunni en að segja sig úr flokknum.

Ótuktin Gylfi Arnbjörnsson

Gylfi tókst á við Steingrím J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um efnahagsmál, krónuna og kjarasamninga í Kastljósinu í gær. Hann vísar á bug fullyrðingum þess efnis að átökin hafi leitt til þess að hann hafi ákveðið að segja sig úr flokknum. Þvert á móti hafi hann gert það eftir að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hafi lýst því yfir á Alþingi í morgun að hann sé ótukt.

„Já, mér skilst að eina ógnin í íslensku atvinnulífi sé Gylfi Arnbjörnsson,“ segir Gylfi.

Gylfi gekk í Samfylkinguna þegar hún var til við samruna Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Samtaka um kvennalista og Þjóðvaka, flokk Jóhönnu Sigurðardóttur, árið 2000. Þetta var fyrsti stjórnmálaflokkurinn sem Gylfi gekk í, að því er fram kemur í yfirlýsingu sem hann sendi fyrrum flokkssystkinum sínum og fjölmiðlum í dag.

Yfirlýsing Gylfa:

„Þegar Samfylkingin var stofnuð ákvað ég í fyrsta skipti á ævinni að ganga í stjórnmálaflokk. Það gerði ég vegna þess að ég taldi að með stofnun hennar hefði loksins orðið til það afl á vettvangi stjórnmálanna þar sem grunngildi hinnar norrænu jafnaðarmennsku, sem á rætur sínar í grunngildum verkalýðshreyfingarinnar um jafnrétti og bræðralag , ættu sér skjól og öflugan málsvara á vettvangi stjórnmálanna. Jafnframt bauð ég mig til starfa á vettvangi flokksins og vildi með því taka þátt í að móta stefnu hans og deila langri reynslu af þátttöku í baráttunni fyrir hagsmunum launafólks. Smátt og smátt hef ég þó dregið mig út úr þessu starfi og eftir að flokkurinn komst til valda árið 2007 hefur það ítrekað gerst, að Samfylkingin hefur í verki fjarlægst þau grundvallarsjónarmið sem ég tel að flokkurinn eigi að byggja stefnu sína og aðgerðir á. Eftir að ég var kjörin forseti Alþýðusambands Íslands hætti ég með öllu beinum afskiptum af starfi flokksins. Það gerði ég bæði vegna ítrekaðra árekstra um einstök mál sem Alþýðusambandið hefur lagt áherslu á og eins vegna þess að mér fannst það ekki lengur samræmast stöðu minni að vera virkur í flokkstarfi.

Nú er hins vegar svo komið að ég get ekki lengur varið það gagnvart samvisku minni og þeim hagsmunum sem ég hef helgað starfsferil minn að vera flokksbundin í Samfylkingunni. Það afskiptaleysi, áhugaleysi, skilningsleysi og á stundum bein andstaða flokksforystunnar við mikilvæga hagsmuni almenns launafólks hefur fyllt mælinn. Hér á m.a. í hlut hik og aðgerðaleysi í atvinnusköpun, endurteknar skerðingar á réttindum elli- og örorkulífeyrisþega og atvinnuleitenda og nú síðast skattlagning á lífeyrisréttindi almenns launafólks á sama tíma og réttindi ráðherra, þingmanna, æðstu embættismanna og þeirra opinberu starfsmanna sem eiga aðild að opinberu lífeyrissjóðunum eru varin með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga.

Í öllum þessum málum tel ég að forysta og þingflokkur Samfylkingarinnar hafi snúið baki við hagsmunum launafólks á almennum vinnumarkaði, þess fólks sem treyst hefur verkalýðshreyfingunni fyrir mikilvægum hagsmunum sínum. Tel ég þetta svo alvarlegt að ég vil ekki lengur sem forustumaður innan verkalýðshreyfingarinnar og sem jafnaðarmaður bera á þessari stefnu þá ábyrgð sem felst í aðild minni að flokknum. Ég segi mig því hér með formlega úr Samfylkingunni.

Reykjavík, 14. desember 2012,
Gylfi Arnbjörnsson“