Gylfi Arnbjörnsson hlaut 166 atkvæði eða 59% atkvæða og er því réttkjörinn forseti ASÍ til næstu tveggja ára en niðurstaða í kosningum til forseta Alþýðusambands Íslands liggur fyrir.

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, formaður Landssambands verslunarmanna og varaforseti ASÍ,  hlaut 114 atkvæði eða 41%.

283 greiddu atkvæði þar af skiluðu 6 auðu.

Gylfi tekur við forsetaembættinu af Grétari Þorsteinssyni sem lætur nú af því starfi eftir 12 ára farsæla setu á forsetastóli.

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir tilkynnti, eftir að niðurstaða forsetakjörs lá fyrir, að hún ætlaði að sitja áfram sem varaforseti en Ingibjörg á ár eftir af sínu kjörtímabili.

Þetta kemur fram á vef ASÍ.

Gylfi var áður framkvæmdastjóri ASÍ og hefur starfað innan sambandsins frá árinu 1989. Hann er hagfræðingur að mennt.